Stora Stockholm
Skellti mér enn eina ferðina á Stora Stockholm / Hund 2008 og í heimsókn á Hestmosaveginn að hitta Moorwood hundana og heiðurshjónin Svarstad. Hreint ótrúlega fallegur hundhópurinn núna, allir í fullum vetrarfeldi og Jónas Rafnar, sem fékk að koma með í þetta sinn, skemmti sér konunglega við að leika við hunda á öllum aldri. Það var gaman að sjá fjórar kynslóðir af bláum fegurðardísum, Crystal, Cindy, Flash fallegasta og Betty litlu, sem vonandi er með fullt af litlum bláum hvolpum eftir Sammie.
Litla Charm, sem nú heitir Bella til minningar um mömmu Bangsa míns, heilsaði upp á tilvonandi eigendur og lék við Jónas Rafnar. Hún verður lítil tík, en fallega byggð og fríð. Geri ráð fyrir að taka hana heim í febrúar á næsta ári. Með henni fæ ég aftur örlítið af Dísu minni, gamlar og fallegar ekta Moorwood línur. Ég var með í för þegar pabbi hennar, M. Handsome Boss, varð World Winner á heimssýningunni í Portó í Portúgal um árið - ævintýraleg mörg þúsund kílómetra ferð á húsbíl sem hægt væri að skrifa bók um.
Stora Stockholm sýningin var fín, á milli 80 og 90 sheltie hundar sýndir. Ch. Edgelonian The Real McCoy varð BOB og náði líka 3ja sæti í grúppu að mig minnir, hjá sama dómara. Flash varð besti rakki 2. Þemað á þessari sýningu var NKU, Norðurlandasamstarfið, og það var frábært að sjá myndskeiðið þar sem íslenski fjárhundurinn var kynntur á risastóru tjaldi í úrslitunum, undir dynjandi "Ísland er land þitt" laginu. Myndskeiðið var unnið upp úr sérlega fallegur myndbandi um þjóðarhundinn okkar, sem selt er á skrifstofu HRFÍ. Held að standi til að færa það yfir á geisladisk fljótlega. HRFÍ var með kynningarbás á sýningunni og í úrslitum mátti heyra hin ýmsu júróvisjonlög frá Norðurlöndunum.
Frekari fréttir bíða nýs árs, en eins og venjulega er ýmislegt verið að bralla og malla.
Ég ætla að taka "secret" á þetta og óska þess að árið 2009 sjáum við loks árangur erfiðisins í litla sheltie-stofninum okkar, með bláum, svörtum og gulum hvolpum!!
Gleðileg jól öll saman og gæfuríkt komandi ár. Við Jónasar, Lotta, Ísi og Rannsý þökkum liðið.